Átti von á vinkonu í mat og mundi eftir Tandoori mareneringu, sem ég gerði oft hérna einu sinni og mér fannst alltaf mjög góð. Ég hef ekki fundið leið til að lita matinn rauðan nema með matarlit, sem ég nota ekki þannig að þetta verður að vera litlaust en mjög bragðgott. Ég set í mareneringu kvöldið áður en ég elda.
3 kjúklingabringur í ræmum eða leggir, vængir eða læri
safi úr tveimur sítrónum
salt
ca 2 sm engiferrót
1-3 hvítlauksrif
1 lítill laukur
ca 1/4 tsk chiliduft eða ca 1/2 ferskur
2 msk garam masala (finnið þá kryddblöndu undir Tikka Masala kjúklingauppskrift hér á síðunni)
Bringur skornar í ræmur. Þær lagðar á disk og penslaðar með sítrónusafa og saltaðar, þeim svo snúið við og gert það sama þeim megin. Láta standa í safanum í 20 mínútur. Á meðan setja jógurt, krydd, engifer, hvítlauk og lauk í matvinnsluvél og vinna vel saman. Eftir 20 mínúturnar setja kjúklinginn í mareneringuna og setja í lokað nestisbox eða setja plast yfir skálina svo þetta sé loftþétt. Geyma í kæli í 12 klst eða lengur ef vill. Bakað á grind í ofni með skúffu undir í ca 20 mínútur.
Mjög gott að nota afgangana kalda í salöt.