Það var árið 2016 að ég var í þeim sporum að vera að fara að flytja í minna húsnæði. Þurfti að minnka búslóðina töluvert. Tilhugsunin um að fara í gegnum allt saman var frekar yfirþyrmandi. Fyrir einhverja tilviljun sé ég bókina Taktu til í lífi þínu eftir Marie Kondo og ákveð að skoða hana. Ég byrjaði að lesa bókina og fannst hugmyndafræðin alveg galin til að byrja með. Eftir lesturinn ákvað ég að hætta þessari þröngsýni og opna hugann fyrir þessu og tók aðferðarfræðina algjörlega á allt sem ég átti, húsgögn, búsáhöld, föt, skrautmuni, bækur, snyrtivörur og bókstaflega allt.
Þetta var rosa vinna og mjög áhugavert að finna hugann bregðast við já eða nei eftir því hvort hluturinn væri þýðingarmikill fyrir mig eða ekki, hvort mig langaði að eiga hann eða ekki. Það var magnað hvað margt var mjög skýrt já eða nei, fáir hlutir sem fóru til hliðar sem ég var ekki viss um og þurfti að fara aftur í gegnum.
Það fór heill haugur frá mér við þessa flokkun, ég hugsa að ca 2/3 af veraldlega lífinu hafi farið í þessari hreinsun.
Ég kom mér upp nýju heimili með hlutunum, sem mér þótti vænt um, skiptu mig máli og ég notaði.
Eftir þetta hef ég flutt aftur og í dag er heimili mitt nákvæmlega eins og ég vil hafa það.
Í hreinsuninni komst ég betur að því hvernig manneskjan ég er, hvað veitir mér gleði og hamingju, hvað mér líður vel með að hafa í kringum mig, hvað skiptir mig máli.