Það var fallegt veður þegar ég vaknaði í morgun. Sunnudagur og ég hafði ekki stillt klukku og vaknaði um 9:30, svaf sem sagt út. Eftir að hafa hlustað á hljóðbók og fengið mér kaffibolla langaði mig að fara í einhverja hreyfingu. Fann að mig langaði ekki út að hlaupa né ganga og langaði ekki í ræktina. Ákvað því að fljóta í einhverja heimaæfingu.
Tók slatta af æfingum og gerði þær allar ROSALEGA HÆGT, eins og í algjöru slow motion. Var með hugleiðslutónlist í bakrunni. Þetta var mjög áhugavert. Finna fullkomlega fyrir hverri einustu hreyfingu, hægt og mjúkt. GEGGJAÐ! Æfingarnar voru fjölbreyttar og reyndu á uppi og niðri og miðju líkamans.
Þegar ég var búin í æfingunum tók ég aðeins mjúkan dans og hreyfði liði. Að því loknu tók ég öndunaræfingu, fjögur sett af Wim Hof öndun. Þegar henni var lokið tók ég slökun í tónheilun (youtube-aði gott tónheilunardæmi), var með tónlistina hátt stillta svo hún næði vel inn í líkamann. Það er svo áhugavert við suma tónlist að það er eins og hún kveiki á öllum frumum líkamans, það er eins og líkaminn iði allur af lífi að innan og orkan flæðir þægilega um mann bæði að utan og innan. Þetta er geggjuð upplifun.
Þegar ég var búin að þessu fór ég í kalda sturtu, klæddi mig í fallegan heimakjól, fann French Cafe music á Spotify, settist niður og fékk mér hollt og gott salat og sellerísafa.
Líkaminn og andinn voru stútfullir af hamingju eftir þessa morgunstund.