

Jæja, þá stökk hún loks á mataræðisvagninn. Búin að lesa (hlusta á) nokkrar bækur, kynna mér helling í gegnum vefinn og var allt í einu tilbúin að stökkva á vagninn.
Það hefur verið fáránlega flókið að fara í gegnum þetta allt saman. Svo mikið af alls konar upplýsingum en þegar maður fer af stað að kynna sér hlutina vel þá fer maður smám saman að sigta úr það sem maður telur vera rugl og velja það sem maður telur vera rétt. Þetta með mataræði og líkamann er svo síbreytilegt og rugl flókið, þ.e. við erum alltaf að finna út líkur á hinu og þessu og það sem talið er hollt fyrir manninn hendist stöðugt til og frá.
Ég sá fljótt að ég þyrfti að velja hverju ég ætlaði að trúa og hvað ég héldi að gæti verið gott fyrir minn líkama. Það eru fjórar bækur sem standa upp úr þeim bókum, sem ég hef lesið um þetta allt saman, það eru:
The Obesity Code – unlocking the secrets of weight loss eftir Jason Fung.
The Complete Guide to Fasting eftir Jason Fung og Jimmy Moore.
Glucose Revolution eftir Jessie Inchauspe.
The Plant Paradox eftir Steven R. Gundry.
Ég hef skoðað mikið af efni frá Dr. Eric Berg á youtube, ég trúi honum mjög mikið. Svo hef ég grúskað alls konar, borið saman og skoðað.
Ég er 56 ára kona, sem samkvæmt mælingum á að vera komin yfir eða langt á leið með breytingarskeiðið. Ég hef aldrei verið á neinum lyfjum nema tekið verkjalyf þegar þarf í gegnum tíðina. Ég var með mígreni frá því að ég var barn en hef verið góð af því í mörg ár en finn samt að höfuðið er veiki parturinn minn auk þess sem ég glími mikið við lower back verki, spjaldhryggur og ég er næstum viss að einhver myndi mögulega greina mig með einhverja gigt þar. Ég fer í blóðprufu á heilsugæslunni einu sinni á ári frá því að ég varð fimmtug og fylgist þar með gildunum mínum. Fyrir um einu og hálfu ári síðan mældist ég með alltof hátt feretín (járn) og það var tappað af mér einu sinni í mánuði þrisvar sinnum og síðan hefur það gildi verið fínt. Í sömu prufu kom líka í ljós að kólestrólið væri alltof hátt og blóðþrýstingurinn var líka hár. Læknirinn ræddi strax um að að ég færi á statin lyf við kólestrólinu og blóðþrýstilyf. Mér fannst alveg galið að tækla málið svona, að minnast strax á að setja mig á lyf án þess að spyrja einnar spurningar um hvernig lífstíllinn minn væri. Eftir samtal við heimilislækninn ákvað ég að kaupa mér blóðþrýstimæli og fylgjast með þrýstingnum sjálf og sjá hvernig það kæmi út. Ég ákvað einnig að fara að horfast í augu við lífstílinn og vissi að ég þyrfti að breyta honum. Statinlyfið var alls ekki að virka fyrir mig, ég fékk svo mikla vöðvaverki og hætti strax á þeim. Rúmu ári síðar var ég send til hjartalæknis vegna kólestrólsins og ákvað ég að prófa lyfið Praluent, sem er fljótandi í penna, sem maður sprautar sig með. Ég klára þriggja mánaða skammt af þessu eftir 2 vikur og fer svo í blóðprufu til að sjá hvort gildið hafi breyst. Blóðþrýstingurinn jafnaði sig fljótt þannig að ekki var þörf á lyfjum.
Ég er með mótþróaþrjóskuröskun á háu stigi hvað varðar lyf og er þeirrar skoðunar að líkaminn geti læknað margt sjálfur, með því að hann sé nærður vel og hugsað vel um hann á marga vegu. Svo finnst mér alltof lítið spáð í hvað lyfjainntaka við einu getur mögulega haft áhrif á annað í líkamanum. Finnst svoldið að fagfólk á heilbrigðissviðinu sé í sínum kassa og horfi bara á málið út frá sinni sérgrein en það er bara tilfinning, ég hef sem betur fer ekki reynslu af þeim málum.
Eftir að hafa hafið lífstílsbreytingaferlið mitt, í ársbyrjun 2022 léttist ég um 16 kg (14-16, rokka í þessum tveimur kg) á einu ári.
Draumastaðan mín er að ná tökum á kólestrólinu með mataræði og lífsstíl og að ná bólgum úr neðra bakinu úr mér með mataræði og réttri hreyfingu …
OG að reyna að vera sem heilbrigðust, líða vel líkamlega og andlega og vonandi fyrirbyggja að ég veikist.
Ég flokkaði mataræðið fyrir mig þannig að ég fái góða fitu, nægilegt magn af próteini og svo önnur næringarefni. Ég tek tillit til mataræðis, sem mælt er með fyrir konur á breytingaskeiði, vegna hormónabúskapar og ég fókusera á bólgueyðandi mataræði. Ég borða mjög sjaldan kjöt en borða fisk og sjávarafurðir. Ég spái í hvernig ég brýt föstu, þ.e. hvað ég borða fyrst eftir langa meltingahvíld með teknu tilliti til insulins.
Það að fasta hentar mínum líkama og ætla ég að gera það áfram og nú á þann hátt að ég borða tvisvar á sólarhring í ca 6 klst glugga. Ég verð aldrei svöng fyrr en um klukkan 14 á daginn og fínt fyrir mig að borða ekki seinna en klukkan ca 20. Ég drekk stundum vatn með lífrænu eplaediki eða natrium á milli máltíða. Ég tek nokkur bætiefni. Það er enginn viðbættur sykur í mataræðinu, engin sætuefni (gervisykur) og ekkert hveiti. Ég spái aðeins í lectin, sem er prótín sem talað er um í bókinni Plant Paradox (glúten flokkast t.d. undir það), hef það bakvið eyrað en þar sem ég finn ekki fyrir miklu óþoli hvað það varðar þá ætla ég að horfa framhjá því þannig lagað. Ég verð með kaffið áfram inni, tek það væntanlega út á einhverjum tímapunkti. Ég drekk ekki áfengi og reyki ekki.
Mér finnst þetta geggjað áhugavert og skemmtilegt verkefni. Hlakka til að sjá hvernig þetta muni þróast hjá mér …
ætla samt að þiggja matarboð og fara út að borða stöku sinnum og slaka þá eitthvað á í þessum málum 🙂