Frá því að ég sökkti mér í lesefni um öndun í fyrra hef ég  stöðugt verið að æfa mig í neföndun, sjá hér færslu um öndun. Anda orðið eingöngu með nefinu þegar ég er vakandi nema stundum þegar ég skokka, þá nota ég munninn líka til innöndunar ef þarf. 

Síðan þegar maður sofnar þá tekur undirmeðvitundin við stjórninni og allt fer í einhverja ringulreið og þar á meðal öndunin.

Til þess að ná tökum á líkama mínum yfir nóttina á þennan hátt þá hef ég prófað að nota höfuðband, sem heldur kjálkanum uppi og munninum því lokuðum og núna undanfarið hef ég verið að prófa munnplástra. Þetta er algjörlega geggjað. Án þess að hafa upplifað mig sofa eitthvað illa þá finn ég að ég vakna miklu ferskari en ég var vön, eiginlega fáránlega mikill munur verð ég að segja.

Ég keypti þunna munnplástra og höfuðbandið í gegnum vefsíðuna Sofðu betur. Plástrarnir eru glærir, þunnir og særa mann ekki, hvorki þegar þeir eru teknir af né húðina undir þeim.

 Ég trúi því að með þessu læri líkaminn að beita sér með þeim hætti sem ég er nú að kenna honum, að ég andi smám saman alltaf með nefinu.