Leiðin mín inn í daginn er þannig að þegar ég vakna, fer ég á fætur og inn í stofu þar sem yogadýnan mín er. Ég vel morgunrútínu playlistann minn (róleg tónlist) og byrja að dansa. Mjúkar hreyfingar upp og niður líkamann. Opna líkamann, hreyfi liði. Allt mjúkt og flæðandi eins og nútímadans. Anda vel með hreyfingunum. Finn vellíðunina flæða um mig. Líkaminn minn virðist velja svoldið að gera hringi, allar sveigjur meira og minna í hringi. Dansinn snýst ekki um teygjur, bara flæði og mýkt.
Það er mismunandi hvað ég dansa lengi, stundum bara eitt lag og stundum nokkur lög, bara eftir því hvað mig langar að dansa mikið þann daginn.
Þegar ég finn að ég sé búin að dansa nóg þá leggst ég niður á dýnuna með púða undir höfði og hnjám. Ég vel Wim hof öndunarmöntru á youtube og tek 3 sett af henni. Passa að tungan í munninum liggi slök í neðri gómi og við innöndun að passa að axlir séu alveg fullkomlega slakar. Í æfingunni, sem ég nota, er dregið ákaft inn andann en ég fókusera stundum á að draga andann inn rólega, samt nokkuð hratt, reyna að lágmarka spennuna við innöndun. Í pásunni á milli öndunarsettanna þegar maður er búinn að anda frá sér og heldur þá er misjafnt hvað ég get/vil halda lengi, það fer eftir því hvernig líkaminn er hverju sinni.
Þegar ég hef lokið önduræfingunni þá vel ég slökunar playlistann minn (hugleiðslutónlist) og ligg áfram á dýnunni, stundum kemur fram þörf að teyja úr líkamanum, teygja og sveigja hrygginn og þá geri ég það og svo tek ég slökun og hugleiðslu. Sú stund er líka misjöfn, stundum er ég bara þar, engar hugsanir bara hrein slökun, stundum fókusera ég á líkamann og hvernig mér líður, stundum hugsa ég mig inn í daginn og um lífið almennt.
Þegar ég er orðin góð í slökuninni þá fer ég í ískalda sturtu.
Ég er aldrei á klukkunni en veit að rútínan getur tekið ca 30 mínútur.
Þessi leið hentar mér fullkomlega og gerir mig ótrúlega hamingjusama og glaða inn í daginn.