Líkami minn og hugur hefur verið mikið rannsóknarverkefni hjá mér síðastliðin rúm tvö árin. Hef svo ótrúlega mikinn áhuga á að stúdera líkamann, hugann og orkuna og prófa mig áfram í þeim efnum. Ég er rannsakandinn og sú sem er rannsökuð. Það verkefni hefur verið vægast sagt áhugavert og skemmtilegt.

Fyrir frekar stuttu síðan fór ég að upplifa að ég er þrennt. Efnislegi líkaminn, hugurinn og líkamsorkan. Þetta með líkamsorkuna var svoldið nýtt fyrir mig, að finna hana þannig lagað aðskilna hinu tvennu. Svo fór ég meðvitað að fylgjast með minni líkamsorku. Það er ekki þannig að ég sé alltaf að spá í hvernig þetta og hitt sé að virka en ég staldra við annað slagið og spái í hvernig líkamsorkan mín sé og hafi verið undanfarið.

Ég jók við mig vinnu fyrir um mánuði, steig inn í mjög mikla og krefjandi vinnu og tók eftir að orkan mín var ótrúlega þægilega flæðandi þrátt fyrir allt áreitið og að maður væri að hoppa á milli ólíkra úrlausnarefna á miklum hraða. Mér fannst þetta mjög skrítið því áður hafði áreiti og álag farið nokkuð mikið inn í mig, verið í einhverri skrítinni orku, sem kláraði batteríin mín.

Þessi líkamsorka er ekki endilega háð því að ég hreyfi mig eitthvað rosalega mikið eða borði svakalega hollan mat því þennan mánuð hef ég farið af sporinu bæði í hreyfingu og mataræði en líkamsorkan hefur verið frábær. Það sem ég finn er að það er fullkominn friður í orkunni, líkamanum og huganum. Lítil sem engin vöðvaspenna vegna setu og álags, líkaminn mjúkur og þægilegur. Ótrúlegt jafnvægi í heildarkerfinu og orkan nánast sú sama í byrjun vinnudags og í lok.

 

Hlakka til að fylgjast betur með þessari hlið á sjáfri mér á næstunni.