Fór í annað sinn í Kap hugleiðslu í síðustu viku. Eins og ég nefndi í fyrri færslu, þegar ég prófaði þetta í fyrsta sinn í nóvember síðastliðnum, þá fannst mér það mjög áhugaverð upplifun, leið vel eftir tímann en fann samt að ég hafði læst líkamanum í tímanum. Þegar Þóra snerti líkamann minn fann ég orku magnast á þeim stöðum en ég læsti, leyfði líkamanum ekki að vera frjáls í viðbrögðum.
Í þennan annan tíma fór ég þannig að ég gaf líkamanum skilaboð um að hann skyldi vera alveg frjáls, mætti gera það sem hann vildi og viðbrögð hans voru rosaleg. Ég fann, eins og í fyrri tímanum, að tónlistin örvaði eitthvað orkustig í líkamanum, mjög þægileg upplifun, eins og hann væri allur aðeins rafmagnaður. Þegar Þóra snerti mig þá var eins og sá partur sem hún snerti sogaðist upp, mjög áhugaverð upplifun, svo ekki sé meira sagt. Þegar leið á tímann þá magnaðist þessi orka svakalega og á tímabili var hryggurinn allur uppspenntur, eins og ég væri í brú, frá Root Chakra upp í Throat Chakra. Spenntist upp frá ca rófubeini (mjöðmum) upp á háls og þetta voru meiriháttar líkamleg átök, sem áttu sér stað inni í mér. Mér leið samt mjög vel en líkaminn var að erfiða, það spratt fram á mér svitinn. Svo fór hausinn einstöku sinnum inn í ferlið og var alveg gapandi hissa á hvað væri að gerast með líkamann en greip ekki inn í. Mér leið mjög vel eftir tímann. Var mjög undrandi yfir þessari mögnuðu upplifun. Ég er alveg viss um að ég á eftir að prófa þetta aftur.