Hef verið að fylgjast vel með orkuflæðinu mínu undanfarið og reyna að horfa utan frá á hvað virðist hafa áhrif á flæðið. Ég er búin að finna það út að hugleiðsla er einn mikilvægasti lykillinn að vellíðan fyrir mig. Ég get dottið í ,,minna hollt´´ mataræði og dregið töluvert úr hreyfingu og samt haldið orkunni í flottu flæði ef ég stunda hugleiðslu.
Byrjaði að æfa mig í huleiðslu fyrir mörgum árum en hún varð aldrei að einhverju sem ég stundaði daglega eða reglulega heldur meira eitthvað sem ég greip til þegar ég var komin á ,,endastöð´´´orkulega séð. Tók þá hugleiðslu til að reyna að ná núllstillingu.
Í dag er hugleiðsla eitthvað sem ég stunda daglega, stundum tvisvar til þrisvar á dag. Mér finnst best að hugleiða þegar ég er nývöknuð á morgnana og áður en ég fer að sofa á kvöldin. Svo tek ég stundum stutta hugleiðslu(r) yfir daginn, ef mér líður þannig að ég þurfi það.
Í hugleiðslu nær maður fínni yfirsýn yfir heildarkerfi manns, líkamann, hugann og orkuna. Maður getur fundið/lesið skilaboð, sem líkaminn gefur manni og sem undirmeðvitundin gefur manni og unnið úr því. Maður getur endurforritað sig hugarfarslega. Maður getur núllstillt sig orkulega séð á svipstundu ef orka manns er trufluð með einhverjum hætti, s.s. með neikvæðum hugsunum, upplifunum og aðstæðum.
Líkaminn, hugurinn og orkan læra að stilla sig saman í ástand sem er fullkomin vellíðan og þegar maður finnur hversu í raun auðvelt það er að stilla heildarkerfið saman með þessum hætti þá verður kerfið svo meðvitað um að vilja líða alltaf vel, vera í jafnvægi og stillir sig fljótt á þann stað þegar orkan er trufluð með einhverjum hætti.
Það er geggjuð frelsistilfinning sem fylgir því að ná líkama, huga og orku á þennan stað.
Í vor skrifaði ég pistil um self management og emotional regulation og eins og ég upplifi hlutina þá tengist núskrifaður pistill þeim pistli efnislega.