Hugleiðsla hefur verið hluti af mínu daglega lífi síðastliðið eitt og hálft árið. Hún er orðin svo mikilvægur hluti af deginum að ég gæti ekki hugsað mér hann án hennar. Ég hugleiði alltaf á morgnana, í lok morgunrútínunnar (sjá eldri færslu um morgunrútínuna mína) og oft á kvöldin. Stundum tek ég örstuttar hugleiðslur yfir daginn, til að núllstilla mig þegar ég finn að ég er að fara eða komin á yfirsnúning.

Hugleiðslurnar mínar eru alls konar, mislangar og misdjúpar. Stundum hreinsa ég allt í burtu, allar hugsanir og er bara í hreinni líkamsskynjun, það geri ég m.a. í stuttu hugleiðslunum yfir daginn. Stundum leyfi ég því sem vill koma úr undirmeðvitundinni koma fram og ég horfi á það utan frá, það getur verið mjög áhugavert. Ég reyndar horfi alltaf á það sem kemur fram utan frá, eins og ég sé að horfa á þátt eða bíómynd. Stundum stýri ég sjálf hvað ég vil sjá, sé fyrir mér aðstæður og hluti, sem ég vil hafa í lífi mínu. Eins og lífið sé orðið eins og ég sé það fyrir mér.

Hugleiðslurnar eru ómissandi hluti af lífinu mínu og gera dagana enn betri og skemmtilegri.