Á heilsuvegferð minni hef ég séð það skýrt að það er engin ein ,,töfralausn´´ á hlutunum. Það er ekkert eitt rétt fyrir alla. Við erum jafn fjölbreytt og við erum mörg og verðum að finna út hvað hentar OKKUR sjálfum. Hvaða matur telur maður að sé hollur og góður fyrir sig, hvaða hreyfing finnst manni góð og skemmtileg fyrir mann líkamlega og andlega, þarf maður fjölbreytileika eða vill maður fábreytileika, þarf maður 7 klst svefn eða 9, hvernig hleður maður orkustigið sitt o.s.frv..

Ég hef svoldið orðið vör við að sumt fólk vill töfralausnir (skyndilausnir) og nennir ekki að leggja á sig til að breytast og bæta sig. Var í samtali við konu um daginn en hún hefur lengi verið ósátt við þyngd sína og mikið talað um hvernig hún gæti náð að létta sig. Ég nefndi að hún þyrfti örugglega að taka töluvert til í mataræði sínu og það fannst henni alveg ómögulegt, það væri svo leiðinlegt. Ég spurði hana hvort það gæti verið að vandamál hennar væri viðhorf til hlutanna og leti að takast á við þá (hægt að breyta viðhorfum með því að læra að vinna með undirmeðvitundina með sjálfdáleiðslu/hugrænni endurforritun). Henni brá við svarið og játaði síðan að svo gæti verið og síðan var þetta ekki rætt meira.

Það er mikil og skemmtileg vinna að breyta lífsstílnum sínum og ég vona að sú vinna haldi áfram allt mitt líf.

Maður ætti alltaf annað slagið að endurskoða sig. Fara yfir hvernig hlutirnir er, hvort maður vilji breyta einhverju og prófa eitthvað nýtt. Vera lifandi og opinn. Móta og endurskoða líf sitt.