Það hefur verið þrautinni þyngri að koma mér viðvarandi á matarvagninn, sem ég vil vera á. Sumarið fór í algjört rugl hjá mér í mataræðinu og ég ákvað að vera ekki að berja mig niður heldur fylgdist meira með mér, fylgdist með matarhegðun minni. Það var mjög áhugavert svo ekki sé meira sagt. Kynntist svoldið nýrri hlið á sjálfri mér, varð meðvituð um ,,veikleikana´´ – horfði á sjálfa mig í vanahegðun og stúderaði mig. Ég hef ekki drukkið áfengi síðan í byrjun ársins 2022 og finn að það mun ekki fara inn aftur hjá mér, finnst áfengi ekki gott en ég þarf að passa mig svakalega á sykri og hveiti, ég á það til að detta í það og svoldið viðvarandi í sumar. Ég hef tekið sykur og hveiti úr mataræði mínu í lengri tíma á tímabilum og það hefur aldrei verið vandamál en það var einhver trigger á mig í sumar með það, gæti mögulega tengst undirliggjandi streitu.
Ég finn mjög vel í líkamanum mínum þegar ég fell svona af matarvagninum, verkir aukast, ég verð þrútin og þreytt. Auk þess þyngdist ég um 3-4 kg.
Nú er ég að stökkva aftur á matarvagninn ,,minn´´ og eins og áður þá miða ég við tvær góðar máltíðir á sólarhring og borða ekkert í ca 17 klst. Þessi matarrútína hentar mér mjög vel. Ég reyni að passa að máltíðirnar séu næringarríkar og spái mikið í að reyna að forðast mat sem talinn er valda bólgum í líkamanum. Ég er líka meðvituð um blóðsykursstjórnun. Mér finnst töluverð vinna við að setja upp svona matarvenju og halda mig við hana en það er hægt að komast í gegnum það.
Búa til nýja venju sem er hollari fyrir líkama og sál.