Ég var allt í einu farin að vera með töluverða sykurlöngun og var farin að úða í mig súkkulaði. Fann að það væri orðið ágætt, fann svoldið til í liðunum og var að spá í hvort þetta súkkulaðiát væri að hafa áhrif á það. Ákvað að prófa að búa til eitthvað sætt, sem ég gæti gripið í. Fór í skápinn og tók saman eftirfarandi hráefni en fólk getur týnt til það sem til er og því finnst sérstaklega gott.

½ bolli döðlur, skornar í 2-3 bita

½ bolli þurrkaðar apríkósur – skornar í tvennt

¼ bolli goji ber, láta þau liggja í bleyti í ca 5 mín og þerra svo vatnið frá

½ bolli þurrkaðar fíkjur, harði stöngullinn framan á skorinn af – skornar í 3-4 bita

¼ bolli möndlur

¼ bolli pecanhnetur

3 msk lífrænt kakó og/eða dash af lífrænum trönuberjasafa

Möndlur ristaðar í ofni. Pecanhnetur ristaðar í potti. Hnetur settar í matvinnsluvél og unnar í ca 5 sekúndur. Restin af hráefnum sett út í og allt unnið saman í smá tíma. Kúlur mótaðar og þær settar í kæli.

Dettur í hug að það væri sniðugt að setja ½ banana í kúlurnar. Svo væri hægt að velta þeim upp úr kókósmjöli eða fínhökkuðum hesilhnetum.